Heimsins besta hummus!
17. júní gleðin í ár var af skornum skammti en við fjölskyldan skruppum þó aðeins að sjá fjölskylduskemmtunina á Rútstúni í Kópavogi. Rigningin var heldur mikil fyrir minn smekk svo við skelltum okkur bara heim í kotið.
Við mamma nenntum ómögulega að standa í bakstri og ætluðum því að kaupa einhverjar kræsingar í bakaríi á leiðinni heim. Það var lítið sem ekkert í boði þegar við mættum í bakaríið niðurrigndar og fínar. Við brugðum á það ráð að kaupa kökumix sem við poppuðum svo aðeins upp. Fyrir valinu varð gulrótarkökumix með tilbúnu vanillukremi og Reese's bollakökumix með hnetusmjörsfyllingu.
Ég bætti ferskum gulrótum í kökuna og þeytti rjómaost saman við vanillukremið til að gera hana aðeins gulrótarkökulegri. Kremið var svoleiðis slefandi gott.
Til að gera bollakökurnar aðeins (mikið) óhollari setti ég á þær tilbúið súkkulaði- og karamellukrem og skreytti þær með Reese's. Ljómandi gott!
Svo er það rúsínan í pylsuendanum, heimsins besta hummus. Með svona sykurbombu finnst mér alltaf gott að hafa eitthvað salt til að narta í svona inn á milli kökusneiða, í þeirri beit sem á sér stað þegar ég kemst í eitthvað gotterí.
Hummus er eitthvað sem ég get alltaf borðað, frábær kostur þegar mann langar í eitthvað hollt og gott álegg. Best finnst mér að borða það ofan á súrdeigsbrauð eða ciabatta. Svo er líka frábært að skera niður stökkt pítubrauð og dýfa í hummusið.
Heimsins besta hummus
1 dós niðursoðnar kjúklingabaunir
1 - 1/2 hvítlauksrif
2 msk grísk jógúrt
1 dl olía
safi úr 1/2 sítrónu
safi úr 1/2 sítrónu
smá nautakraftur
salt
svartur pipar
steinselja eftir smekk
Hellið vökva af kjúklingabaunum og maukið í blandara eða matvinnsluvél ásamt hvítlauksrifi, grískri jógúrt, olíu og sítrónusafa. Smakkið til með nautakrafti, salti og pipar. Saxið steinselju og blandið saman við hummusið.
Hægt er að nota nautakraft í duftformi en ég leysi upp nautatening í smávegis af sjóðandi heitu vatni.
Í staðinn fyrir gríska jógúrt er líka virkilega gott að nota AB mjólk.
Berið fram með einhverju góðu brauði eða pítubrauði sem skorið hefur verið í stangir.
Nýlega fór afþreyingarvefurinn Króm í loftið þar sem uppskriftirnar mínar birtast ásamt alls kyns fróðlegu skemmtiefni fyrir bæði kynin. Ég hvet ykkur til að líta við og skoða.
Svo má ekki gleyma Instagram! notandanafnið mitt er tinnabjorgcom ef þið viljið fylgjast meira með mér í máli og myndum.
Njótið 70. þjóðhátíðarkvöldsins!
Tinna Björg
Ummæli
Skrifa ummæli