Góð og græn pizza


 Á þriðjudaginn kom ég glorhungruð heim úr ræktinni og hafði það ekki í mér að fara að hnoða í sveitta pizzu eftir öll átökin. Í staðinn tíndi ég til það sem ég fann í ísskápnum og bjó til svona líka ljómandi góða græna pizzu.
Ég er ekki ein af þeim sem trúir því að spelt sé heilsufæði svo ég reyni að nota það sem minnst í baksturinn en það má nú stundum.

 

Græn og væn pizza

Pizzabotn

50 g brokkolí
150 g blómkál
30 g spínat
100 g gróft spelt
1/2 tsk salt
1 1/2 tsk lyftiduft
1 msk olía
80-90 ml heitt vatn


Hakkið brokkolí og blómkál í matvinnsluvél og hitið í örbylgjuofni í 3 mínútur. Hakkið spínat í matvinnsluvél og blandið saman í skál ásamt brokkolíi, blómkáli og þurrefnum. Bætið olíu og heitu vatni saman við og hrærið öllu vel saman.
Sáldrið smá spelti á borðið og hnoðið saman við deigið.
Setjið deigið á bökunarpappírsörk, fletjið út og forbakið pizzabotninn við 200° í 10-15 mínútur.
Ég hafði deigið svolítið blautt og klístrað svo það yrði ekki þurrt. Til að fletja út svona klístrað deig legg ég aðra bökunarpappírsörk ofan á það áður en ég byrja að fletja út með kökukefli.


Álegg

2-3 msk tómatpúrra
2-3 msk pizzasósa
200 g rifinn ostur
10 sneiðar reykt silkiskorin skinka
1 hvítlauksrif
svartur pipar
pizzakrydd
parmesanduft
spínat

Smyrjið tómatpúrru jafnt á pizzabotninn og þekið tómatpúrruna með pizzasósu. Stráið rifnum osti yfir pizzuna, skerið reykta skinku í strimla og dreifið yfir ostinn. Pressið hvítlauk og sáldrið yfir pizzuna ásamt svörtum pipar, pizzakryddi og parmesandufti.

Bakið pizzuna við 200° í 15-20 mínútur. Dreifið yfir hana spínatblöðum áður en hún er borin fram.


Ég notaði tilbúna pizzasósu þótt hún sé ekki sú hollasta en fyrir þá sem vilja gera sína eigin er góða uppskrift að finna hér.


Þótt græna pizzan innihaldi spelt þykir mér hún skárri kostur en þessar venjulegu og skemmtilegt að breyta aðeins til. Það kom mér virkilega á óvart hversu bragðgóð pizzan er, manni dettur ekki í hug að botninn innihaldi grænmeti af einhverju tagi.


Ummæli

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur