Einn einfaldur kjúklingaréttur


Ég skilaði síðasta verkefni BA námsins á mánudaginn og er búin að vera heima að eiga mér líf með dóttur minni síðan. Þvílíkur léttir! Ég mun þó ekki eiga mér líf lengi því fyrsta prófið er um miðjan apríl og ekki seinna vænna en að byrja að læra. Mánaðarlöng prófatörn framundan, ég verð gráhærð þegar ég hugsa um komandi vikur. Við fjölskyldan ætlum þó að leyfa okkur að eiga nokkra góða daga hjá bróður mínum og hans fjölskyldu í Svíþjóð áður en herlegheitin byrja.

Færslan verður stutt hjá mér að þessu sinni en ég má til með að deila með ykkur ótrúlega einfaldri og bráðgóðri uppskrift að kjúklingabringum úr hugarsmiðju snillingsins hennar móður minnar.


Kókoskjúklingur með mango chutney
Fyrir 3-4 manns

6 kjúklingabringur
salt
svartur pipar
350 ml rjómi
1 krukka mango chutney
kókosmjöl

Kryddið kjúklingabringur með salti og svörtum pipar, grillið í 5  mínútur á hvorri hlið á háum hita og setjið í eldfast mót.
Hrærið saman rjóma og hálfri krukku af mango chutney og hellið yfir bringurnar í mótinu. Smyrjið hinum helmingnum af mango chutney ofan á kjúklingabringurnar og stráið kókosmjöli yfir eftir smekk.
Eldið í ofni við 180° í um 15-25 mínútur.

Til að spara fyrirhöfnina er gott að elda kjúklingabringurnar í ofni við 180° í 25-30 mínútur í stað þess að grilla þær, áður en rjómasósa, mango chutney og kókosmjöl fara í mótið. Þær eru þá eldaðar í samtals 40-50 mínútur í ofni.

Berið fram með hrísgrjónum og salati.


Þessi dásamlegi kjúklingaréttur er tilvalinn svona í miðri viku þegar maður kemur þreyttur heim úr vinnunni og langar síður að eyða löngum tíma við eldamennskuna.

Ég hvet ykkur til að prófa!


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur