Fiskréttur vikunnar


Þrátt fyrir að ég sé mikill sælkeri og haldi úti matarbloggi mér til gamans þá hef ég alltaf verið svolítið matvönd, móður minni til mikillar mæðu. Fiskur er eitthvað sem ég borða hvað sjaldnast, sem er algjör synd því hvar fæst betri fiskur en á Íslandi? Og þegar ég borða fisk hef ég oftast aðeins valið ýsu.
Fyrst ég hef búið meira og minna á Ísafirði í allt sumar,  í sjávarþorpinu þar sem fiskurinn fæst ekki ferskari, mátti ég til með að fullorðnast og kíkja í fiskbúðina. Úr einni fiskbúðarferðinni spratt hugmyndin að þessum  ljúffenga þroskrétti sem ég er virkilega ánægð með. Rétturinn er algjört lostæti þótt ég segi sjálf frá og tilvalinn til að kenna gikkjum eins og mér gott að meta.


Þorskhnakki með döðlupestó

1 sæt kartafla
2 rauðar Ramiro paprikur
sjávarsalt
svartur pipar
1 krukka fetaostur
1 krukka grænt pestó
2/3 bolli salthnetur
10-15 döðlur
1 kg þorskhnakki (3-4 flök)

Afhýðið sæta kartöflu og skerið í um 1 cm þykkar sneiðar. Kljúfið Ramiro paprikur, fræhreinsið þær og skerið í nokkuð stóra bita, um 2-3 cm. Smyrjið eldfast mót með 1 msk af olíu af fetaostinum. Raðið sætum kartöflum í botninn á mótinu og dreifið paprikubitum yfir ásamt smá sjávarsalti og svörtum pipar. Eldið í ofni við 200° í 20 mínútur og útbúið döðlupestó á meðan.

Hellið olíu af fetaosti, setjið hann í skál og stappið örlítið með gaffli þannig að teningarnir verði smærri. Blandið grænu pestó saman við fetaostinn ásamt salthnetum og smátt skornum döðlum.

Skerið þorskflök í 2-3 stykki og raðið ofan á sætar kartöflur og papriku. Smyrjið 2-3 msk af döðlupestó yfir hvert þroskstykki þannig að fiskurinn verði alveg þakinn pestói. Lækkið hitann á ofninum í 180° og eldið fiskréttinn í 20 mínútur.

Berið fram með fersku salati.


Öll hráefni í þennan nýja uppáhalds fiskrétt fást í Fjarðarkaupum.






 Ég hvet ykkur til að prófa þennan kæru vinir.



Tinna Björg




Ummæli

Vinsælar færslur