Hvönnin nýtt í dýrindis kvöldverð


Ég er mikið náttúrubarn og hef gaman af því að nýta það sem náttúran okkar hefur upp á að bjóða í matargerðina. Það er óþarfi að fara alla leið upp í sveit til að finna hinar ýmsu matjurtir, þær vaxa víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu, til dæmis í garðinum hjá nágrannanum. Nei djók.
Ég nota ætihvönn reglulega í matargerð en hún sprettur m.a. við árbakka og læki. Um daginn fórum við mæðgur í gönguferð um Kópavogsdalinn þar sem ég rakst á svona líka ljómandi fína hvönn til að taka með heim í soðið.


Þegar ég tíni hvönn vel ég smávaxin og ljós lauf, þau eru yngri og ekki eins römm og þau sem stærri og dekkri eru. Hvannarlaufin þykir mér meiriháttar að nota til að krydda kjötrétti eins og þessar ljúffengu kjötbollur.


Hvannarkjötbollur í rjóma-BBQ

Kjötbollur

800 g nautahakk
2 egg
5-6 grófar bruður
1 laukur
3/4 dl mjólk
1 tsk nautakraftur
svartur pipar
1 1/2 tsk sjávarsalt
1/2 tsk cumin
1/2 tsk laukduft
1/2 tsk hvítlauksduft
1/2 tsk Season All
handfylli söxuð ætihvannarlauf

Setjið nautahakk í skál ásamt eggjum og myljið  bruðurnar yfir. Fínsaxið lauk og bætið við nautahakkið ásamt mjólk, nautakrafti, svörtum pipar, sjávarsalti, cumin, laukdufti, hvítlauksdufti, Season All og söxuðum hvannarlaufum.
 Blandið öllum hráefnum vandlega saman með höndunum. Athugið þó að ef nautahakkið er hnoðað of lengi verður það seigt.

Útbúið hæfilega stórar kjötbollur með höndunum og raðið þeim í stórt eldfast mót. Eldið bollurnar í ofni við 180° í 20 mínútur og útbúið rjóma-BBQ sósu á meðan.


Rjóma-BBQ sósa

2 dl matreiðslurjómi
1 dl Honey Mustard BBQ sósa
1/2 dl tómatpassata
1 msk Maizena mjöl

Hitið rjóma, BBQ sósu og tómatpassata í potti og látið krauma við vægan hita í nokkrar mínútur. Þykkið sósuna með Maizena mjöli.


Þegar kjötbollurnar hafa eldast í 20 mínútur, hellið þá rjóma-BBQ sósunni yfir þær og eldið áfram í 5 mínútur.

 Berið fram með hrísgrjónum og góðu hvítlauksbrauði.


Öll hráefni í þessar stórgóðu hvannarkjötbollur fást í Fjarðarkaupum, nema hvönnin auðvitað. Hana þurfið þið að tína sjálf.


Ég hvet ykkur til að prófa þessa uppskrift í vikunni, sérstaklega ef þið eigið börn. Dóttur minni þykir þessar kjötbollur algjört lostæti.


Tinna Björg
 

Ummæli

Vinsælar færslur