Einfalt helgargóðgæti með kaffinu


Ég hef verið í meiriháttar bloggpásu síðan í lok desember enda mikið að gera þessa dagana. Helstu fréttir af okkur mæðgum eru þær að ný skólaönn í meistaranáminu er hafin og lærdómurinn endalaus en Klara Sóllilja byrjaði í leikskóla í byrjun janúar. Ég tók síðan þrjú hross á hús um miðjan mánuðinn. Það verður nóg að gera það sem af er vetri, þvílík sæla! Það skiptir mig miklu máli að dóttir mín alist upp í návist dýra eins og ég gerði og læri að bera virðingu fyrir þeim. Eplið litla virðist ekki hafa fallið langt frá eikinni því hún svoleiðis elskar að brussast uppi í húsi hjá hrossunum, greiða á þeim faxið og gefa þeim hey.

Síðasta laugardag flutti systir mín og hennar fjölskylda í nýja húsið sitt sem þau hafa verið að gera upp undanfarna mánuði. Mágur minn átti líka afmæli sama dag og auðvitað slógu konurnar í kring um hann upp þessari fínu afmælis- og innflutningsveislu í tilefni dagsins. Systir mín gerði eplagumsið sitt góða sem slær alltaf í gegn, mamma bakaði tvær dásamlegar kökur og tengdamóðir systur minnar, sem er snillingur í brauðréttum og salötum, töfraði fram skinku- og aspasrétt og langbesta túnfisksalatið.

 Ég ætla að deila með ykkur uppskrift að eplagumsinu hennar systur minnar. Nafnið er ekki beint aðlaðandi en gumsið er með því betra sem ég fæ. Þetta er einn af sérréttum systur minnar sem hún hefur gert síðan ég man eftir mér. Ótrúlega einfalt, fljótlegt og himneskt með vanilluís!Eplagums Helenu systur


1 bolli hveiti
1 bolli sykur
1 bolli haframjöl
140 g smjör
5 Jonagold epli
100 g suðusúkkulaði
kanilsykur

Blandið saman í skál hveiti, sykri 0g haframjöli og hnoðið smjörinu saman við með fingrunum. Best er að hafa smjörið svolítið kalt þannig að það sé stíft.

 Brjótið suðusúkkulaði í bita og raðið þeim í botninn á eldföstu móti. Afhýðið Jonagold epli og fjarlægið kjarnann úr þeim. Skerið þau síðan í litla bita og setjið ofan á súkkulaðið í eldfasta mótinu. Klípið litlar deigklessur úr skálinni og dreifið jafnt yfir eplin þannig að þau séu þakin deigi. Stráið síðan kanilsykri yfir deigið.

Bakið eplagumsið í ofni við 175° í 45 mínútur eða þar til deigið ofan á verður stökkt og fallega brúnt.

Berið heitt eplagumsið fram með þeyttum rjóma eða vanilluís.

Ég hvet ykkur til að prófa þessa dásemd kæru vinir, þið verðið ekki svikin!

Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur