Safarík steikt samloka

 Ég hef áður deilt með ykkur þessari uppskrift að ljúffengri steiktri samloku en ég ætla að gera það aftur af því að hún er svo sveitt og góð. Tilvalin lausn fyrir þá sem nenna ekki út að versla því flest hráefnin í samlokuna eru nokkurn veginn staðalbúnaður í ísskápnum, allavega á mínu heimili.


Steikt samloka

smjör til steikingar
2 brauðsneiðar
BBQ sósa
gult sinnep (ekki sætt)
salatblöð eða iceberg
2 skinkusneiðar
ostur
1 tómatur skorinn í 4 sneiðar
5 pepperonisneiðar
1 lauksneið
5 beikonstrimlar
1 egg 

Bræðið smjörklípu á pönnu og steikið brauðsneiðarnar á báðum hliðum þar til þær verða stökkar og fallega brúnar. Smyrjið BBQ sósu á aðra brauðsneiðina og sinnepi á hina. Setjið salatblöð á aðra sneiðina.
Steikið skinkusneiðar á báðum hliðum og leggið þær saman. Setjið ostsneiðar strax ofan á þannig að þær hylji skinkuna og steikið þar til hann bráðnar. Leggið skinkusneiðarnar ofan á brauðsneiðina með salatinu.
Setjið smá smjörklípu á pönnuna og steikið tómata á báðum hliðum þar til þeir mýkjast. Á meðan tómatarnir steikjast, steikið þá pepperonisneiðar í nokkrar sekúndur. Mér finnst nóg að steikja þær örsnöggt á annarri hliðinni. Raðið tómötum, pepperoni og ferskum lauk ofan á brauðsneiðina. Steikið beikon, setjið á brauðsneiðina og lokið svo samlokunni.

Steikið egg við vægan hita, kryddið með Season All og setjið ofan á samlokuna. Til að fá hvítuna í kring um rauðuna til að eldast þannig að enginn hluti af egginu sé hrár, setjið lok á pönnuna í stutta stund þegar eggið er að öðru leyti tilbúið.


Mér þykir ótrúlega gott að setja smjörsteikta sveppi með hvítlauk á samlokuna.


Ég held mér sé óhætt að segja að flestum karlmönnum þyki þessi samloka góð, svo ef þið konur viljið vinna ykkur inn stig hjá eiginmönnunum mæli ég með þessari. 

Verði ykkur að góðu!


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur