Nýtt útlit á stofunni minni og sunnudagssyndin


Það er varla að ég hafi tíma til að reka hingað inn nefið þessa dagana, svo mikil er vinnan og letin þess á milli. Nú er ég á fullu þessa dagana í dagskrárgerð og tökum á Hinu Opinbera. Dagskrárgerð er svo mun meiri vinna en ég hélt. Ég vissi takmarkað út í hvað ég var að fara og var strax eiginlega bara drekkt í djúpu lauginni en mikil ósköp sem þessi vinna er skemmtileg. Krefjandi en skemmtileg. Að standa fyrir framan myndavél og tala er sko meira en að segja það fyrir ungfrú viðutan. Jesús. En sem betur fer hef ég þolinmóðan tökumann sem er álíka utan við sig og ég. Fyrsta tökudaginn tókst okkur einmitt í sameiningu að læsa bíllykilinn inni í bílnum mínum ásamt síma og veski. Smá byrjunarörðugleikar. Sem betur fer vorum við nýbúin að taka viðtal við forsvarsmenn Bílastæðasjóðs sem sáu til þess að bíllinn minn fengi ekki sekt á meðan við útveguðum annan lykil. Afar hentugt.
Tilraunaútsendingar eru hafnar á iSTV en stöðin fer formlega í loftið 17. júlí klukkan 20. Ég hvet ykkur til að fylgjast með öllu skemmtilega og ferska sjónvarpsefninu sem verður þar á dagskrá. List, mótorhjól, dýr, lýðheilsa, gæi með gítar, ferðamennska, tíska, aðrar víddir, hið opinbera og margt fleira.

Undanfarnar vikur hef ég smátt og smátt verið að breyta útlitinu á litlu stofunni minni þegar ég hef haft tíma aflögu. Ég er alveg himinlifandi með borðstofuhornið mitt. Fjölskylduveggurinn er á byrjunarstigi en ég á eftir að hengja upp myndir af nokkrum fjölskyldumeðlimum í viðbót.

 
Ég útbjó textann ,,Heimilið er þar sem hjartað er'' í wordskjali og lét skera vegglímmiða eftir því. Vegglímmiðar eru akkurat minn tebolli og auðvitað gat ég ekki látið stofuvegginn nægja. Ég lét líka skera faðirvorið og límdi það á vegginn fyrir ofan rúmið í svefnherberginu.
Vegglímmiðana fékk ég hjá Strigaprenti. Hægt er að skoða og panta vegglímmiða á síðu fyrirtækisins eða hanna sína eigin og láta skera út eins og ég gerði.


Nóg um það, í dag er laugardagur og þá fær maður sér gott að borða. Bróðir minn er kominn til landsins með fjölskylduna og af því tilefni skellti hún elsku mamma í helgarbrunch. Eitthvað sem klikkar aldrei.

Ég ætla hins vegar að bjóða ykkur upp á sunnudagssynd. Ástæðan fyrir því að ég deili sunnudagsuppskrift hér á laugardegi er sú að rétturinn þarf að standa í ísskáp yfir nótt.
Þess vegna mæli ég með því að þið stökkvið út í búð og kaupið gæðasúkkulaði ásamt öðru sem til þarf.


Hvítsúkkulaðimús með rabarbarasósu
Fyrir 6 manns

Hvítsúkkulaðimús

500 ml rjómi
50 g rjómaostur
300 g hvítt súkkulaði 

fræ úr 1 vanillustöng
2 msk flórsykur

Hitið rjóma og rjómaost að suðu ásamt fræjum úr vanillustöng og takið af hellunni áður en byrjar að sjóða. Saxið hvítt súkkulaði og hellið rjómablöndunni yfir. Látið standa í um 5 mínútur þannig að súkkulaðið bráðni og hrærið svo þar til rjóminn og hvíta súkkulaðið hafa blandast vel saman. Kælið súkkulaðiblönduna í ísskáp yfir nótt.
Bætið því næst flórsykri saman við súkkulaðiblönduna og þeytið í 5-10 mínútur eða þar til hún þykknar og verður að léttri súkkulaðimús.
 Gott er að kæla hvítsúkkulaðimúsina aftur augnablik áður en hún er borin fram.


Rabarbarasósa

200 g rabarbari
50 ml vatn
2 msk hrásykur

Sjóðið rabarbara, vatn og sykur í 5-7 mínútur eða þar til rabarbarinn mýkist upp í vatninu. Maukið í blandara og kælið. Berið kalda sósuna fram með hvítsúkkulaðimúsinni.

Prófið þessa dásemd.
 Njótið helgarinnar kæru vinir!


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur