Jarðarberja- og myntuæði


Móðir mín fór út í garð í gærkvöldi og tíndi nokkur jarðarber. Ég náði því miður ekki að taka mynd af stærstu berjunum áður en þau voru borðuð af jarðarberjaskrímslunum á heimilinu. Þau eru í smærra lagi en óskaplega góð og alveg dísæt.



Plönturnar hafa dreift sér um alla brekkuna hér heima og vanalega fáum við nokkur kíló af berjum á sumrin. Sumarið hefur þó verið svo kalt og sólarlaust að berin eru seint á ferðinni þetta árið og ekki eins mörg og í fyrra. Systursyni mínum finnst svakalega gaman að fá að fara út í garð að tína enda eru jarðarber það besta sem hann fær.

Ég er lítið fyrir rabarbarasultu og læt móður minni það eftir að búa hana til en hins vegar geri ég rabarbara- og jarðarberjahlaup alltaf á sumrin. Þegar fleiri ber hafa þroskast ætla ég að gera hlaupið og deila uppskriftinni með ykkur. Ég kíkti út í garð áðan og sá að rifsberin eru aðeins að byrja að roðna svo ég get farið að hlakka til að gera rifsberjahlaupið í ágúst.

Myntuplantan sem ég setti niður fyrir nokkrum árum hefur dreift úr sér og vex núna eins og arfi, innan um annan arfa sem við mæðgur höfum ekki nennt að reyta.



Myntuna nota ég mest í drykki. Mér finnst rosalega gott að fá mér jarðarberjamojito á sumrin, hvort sem hann er áfengur eða óáfengur. Einnig geri ég mér stundum hreinsunardrykk þegar mig langar að bregða út af vananum og fá smá bragð af vatninu. Ég lofa engu um hreinsunargildi drykkjarins en hann er svo góður og svalandi að hreinsandi eiginleikinn yrði þá bara plús.

Í síðustu viku gerði faðir minn sér te úr myntunni en það á að vera mjög slakandi. Ég ætla að gera myntuskyrtertu  við tækifæri en ef þið hafið fleiri hugmyndir sendið mér þá endilega línu!

Ég vil helst ekki frysta myntuna því þegar hún er tekin úr frystinum verða blöðin lin og bragðið orðið heldur dapurt.



Eigið góðan dag!


Tinna Björg

Ummæli

  1. Þvílik argandi snilld er þetta! Hlakka til að fylgjast með þér í framtíðinni <3

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur