Glæsileg myntuskyrkaka, marsipanformkaka og klúbbsamloka fyrir karlana.
11 vikna gömul dóttir mín er að taka einn af sínum fjölmörgu vaxtarkippum sem lýsa sér þannig að í 3-4 daga drekkur hún með tveggja tíma millibili og virðist aldrei fá nóg að drekka. Vanalega verður hún ekki svöng fyrr en um klukkan 8 á morgnana en í vaxtarkipp vaknar hún tvisvar yfir nóttina til að drekka. Þegar þessu 3-4 daga tímabili er lokið taka við nokkrir dagar þar sem hún sefur nánast allan sólarhringinn og vaknar aðeins til að drekka. Magnað hvernig þessir litlu kroppar vinna. Í dag var einn af þessum svefndögum og ég fékk nægan tíma til að dúllast í eldhúsinu.
Mig langaði að nýta eitthvað af myntunni í garðinum svo ég bjó til uppskrift að myntuskyrköku. Mér finnst mynta og súkkulaði vera hin fullkomna blanda og ég er mikið fyrir súkkulaði eins og After Eight og Pipp. Þótt ég hafi búið til algjörlega nýja uppskrift í dag er myntuskyrkaka ekki mín hugmyndasmíð en ég kynntist henni þegar ég vann á Hótel Eddu á Laugum í Sælingsdal síðasta sumar. Á eftirréttamatseðli veitingastaðarins á hótelinu er boðið upp á myntuskyrköku en hún er þó ólík þeirri sem ég gerði í dag.
Súkkulaðið í kökunni vegur upp á móti myntunni og það sem gerir hana enn gómsætari er ekta vanillubragðið sem vanillustöngin gefur.
Ég bakaði líka marsipanformköku sem mér finnst alveg unaðslega góð. Kakan sjálf er gömul jólakökuuppskrift frá móðurömmu minni. Hugmyndina að því að setja marsipan í kökuna fékk ég frá Gógó frænku minni heitinni. Þegar ég fór til Ísafjarðar á sumrin með foreldrum mínum sem barn fórum við alltaf í heimsókn til Gógó frænku og Inga frænda. Í einni heimsókninni var Gógó nýbúin að baka sandköku og hafði átt afganga af marsipani sem hún vildi ómögulega henda. Úr varð þessi dýrlega marsipanformkaka sem ég hef aldrei getað gleymt.
Það var ekki bara kökuveisla hjá karlmönnunum á heimilinu í kaffitímanum heldur steikti ég klúbbsamlokur fyrir þá líka. Samlokan er i miklu uppáhaldi hjá kærastanum mínum og ég held mér sé óhætt að fullyrða að þið konur munuð vinna ykkur inn nokkur prik í kladdann með þessari.
Verslunarmannahelgin nálgast óðfluga og á morgun ætla ég að birta uppskriftir að tvenns konar sítrónukökum sem þægilegt er að hafa með í ferðalagið. Ég er afar hrifin af formkökum, sér í lagi sítrónuformkökum.
Vonandi njótið þið þessara uppskrifta jafn mikið og ég geri.
Bestu kveðjur!
Tinna Björg
Ummæli
Skrifa ummæli