Helgarkakan - Allt öðruvísi en venjulega


Helgarkakan að þessu sinni er heldur óvenjuleg en ég bjó uppskriftina til fyrir matgæðing Vikunnar í sumar. Af því að ég er búin að deila með ykkur endalaust mörgum uppskriftum að ostakökum í gegn um tíðina er ég nokkuð viss um að það sé kominn tími fyrir smá nýjung. Þessi dásemd er samt næsti bær við ostaköku...Só sorrí.


Karamellujógúrtkaka


Botn
1 pakki Tom & Jerry kex
70 g brætt smjör

Fínmalið Tom & Jerry kex í matvinnsluvél og blandið saman við brætt smjör. Klæðið botninn í litlu hringlaga smelluformi (20 cm) með plastfilmu. Þrýstið kexblöndunni jafnt og þétt ofan í smelluformið og frystið kökubotninn í um 20 mínútur. Leysið kexbotninn úr forminu og fjarlægið plastfilmuna. Spreyið því næst hliðar smelluformsins með örlitlu Pam spreyi. Þannig losnar jógúrtkakan auðveldlega úr forminu síðar. Að lokum er kexbotninn aftur settur varlega í smelluformið.


Jógúrtfylling

500 ml Þykkmjólk með karamellubragði
300 ml þeyttur rjómi
4 matarlímsblöð
50 ml rjómi

Blandið þykkmjólk og þeyttum rjóma varlega saman. Leggið matarlímsblöð í vatnsbleyti þar til þau mýkjast og kreistið síðan úr þeim vatnið. Hitið rjóma að suðu, bræðið matarlímsblöðin saman við og kælið svolítið. Hellið matarlímsblöndunni í mjórri bunu út í jógúrtblönduna og hrærið stanslaust á meðan til að koma í veg fyrir að límkekkir myndist.

Hellið jógúrtfyllingunni ofan í smelluformið og kælið kökuna í að minnsta kosti 5 klukkustundir. Best er að geyma hana í kæli yfir nótt. Leysið karamellujógúrtkökuna varlega úr smelluforminu og setjið hana á kökudisk.


Karamellubráð

20 karamellur frá Freyju
30 ml rjómi


Bræðið karamellur og rjóma saman og kælið að stofuhita. Hellið karamellubráðinni yfir jógúrtkökuna og látið leka svolítið niður með hliðunum.



Öll hráefni í þessa ljúffengu jógúrtköku fást í Fjarðarkaupum.


Njótið helgarinnar!
 

Tinna Björg
 

Ummæli

Vinsælar færslur