Jarðarberjarúlluterta


Rúllutertu með jarðarberjarjóma fékk ég alltaf í kaffiboðum hjá föðurömmu minni heitinni. Á sínum yngri árum var hún kennari í hússtjórnarskóla og alveg ofboðslega góður bakari. Hún var af gamla skólanum og notaðist sjaldnast við  uppskriftir heldur bakaði úr því sem hún átti hverju sinni. Það þýddi því lítið fyrir mig að biðja hana um uppskriftina að gómsætu rúllutertunni hennar.
Þótt rúllutertan hennar ömmu hafi verið sú besta þá kemst þessi ansi nálægt henni. Jarðarberin gera hana svo ferska og góða og sætur botninn vegur upp á móti súrsætum berjunum.


 Jarðarberjarúlluterta
Botn
 
5 eggjarauður
2/3 bolli flórsykur
1 tsk sítrónusafi
1/2 tsk sítrónubörkur
5 eggjahvítur
2/3 bolli hveiti
1/4 tsk salt
1 tsk matarsódi
3 msk brætt smjör


Þeytið eggjarauður þar til þær verða þykkar og ljósar. Blandið 1/3 bolla af flórsykri saman við með sleif  ásamt sítrónusafa og sítrónuberki. 
Þeytið eggjahvítur þar til þær verða næstum stífar, bætið þá 1/3 bolla af flórsykri við og þeytið þar til blandan verður stíf.
Hrærið eggjarauðublöndunni saman við eggjahvítublönduna.
Sigtið þurrefni saman í skál og blandið varlega saman við eggjablönduna. Hrærið svo bræddu smjöri saman við.
Smyrjið deigi á smjörpappír þannig að það fylli út í ofnskúffu.

Bakið við 190° í 10-12 mínútur.

Sáldrið smávegis af flórsykri yfir heita kökuna þegar hún kemur úr ofninum.
Leggið viskastykki eða taubleiu á borðið og sáldrið flórsykri yfir. Hvolfið kökunni yfir viskastykkið og rúllið henni upp með smjörpappírnum og viskastykkinu. Kælið hana upprúllaða.
Þegar kakan er orðin köld, rúllið henni út og fjarlægið smjörpappírinn og viskastykkið.


Fylling

Jarðarberjasulta
500 ml þeyttur rjómi
250 g jarðarber
flórsykur eftir smekk

Stappið jarðarber og blandið saman við þeyttan rjóma. Hrærið smá flórsykri saman við rjómann. Hér er það smekksatriði hversu mikill flórsykurinn á að vera eftir því hversu sætan þið viljið hafa rjómann.

Smyrjið þunnu lagi af jarðarberjasultu á kökuna og svo jarðarberjarjómanum yfir. Rúllið kökunni upp og skerið endana af.
Sigtið flórsykur yfir.


Þessi kaka er alveg yndislega góð og tilvalin með kaffinu. Mér finnst best að frysta hana í nokkrar klukkustundir þar til ísnálar hafa myndast í rjómanum.

Verði ykkur að góðu!

Ummæli

Vinsælar færslur