Sumarkjúllinn


Þessi kryddhjúpaði hunangskjúklingur er alveg stórfenglegur. Ég matreiði hann reglulega yfir sumartímann og fæ aldrei nóg. Með hunangskjúklingnum ber ég fram sinnepssósu úr grískri jógúrt og smá majonesi og sætkartöfluskífum með balsamikgljáa. Það kom mér á óvart hvað balsamikgljái og sætar kartöflur eru góð blanda. Þeir sem vilja gera hunangssinnepssósuna enn hollari geta sleppt majonesinu og sett í hana smá meira af grískri jógúrt í staðinn.


Kryddhjúpaður hunangskjúklingur

4 kjúklingabringur
2 msk olía
2 tsk hvítlauksduft
2 tsk chiliduft
1/2 tsk laukduft
1/2 tsk kóríander
1 tsk salt
1 tsk cumin
1/2 bolli fljótandi hunang
1 msk hvítvínsedik

Skerið kjúklingabringur í tvennt og smyrjið með olíu. Blandið hvítlauksdufti, chilidufti, laukdufti, kóríander, salti og cumin saman í skál. Veltið kjúklingabringubitum upp úr kryddblöndunni þannig að allir bitar séu vel kryddaðir. Grillið kjúklingabringubitana á háum hita í 3-5 mínútur á hvorri hlið eða þar til þeir verða fulleldaðir. Hrærið hunangi og hvítvínsediki saman í litla skál. Penslið kjúklingabringubita á báðum hliðum með hunangsblöndunni síðustu mínútuna á grillinu en skiljið þó um 3 msk eftir í skálinni. Takið kjúklingabringubita af grillinu og hellið afgangi hunangsblöndunnar yfir þá. Hafið grillið áfram í gangi í nokkrar mínútur og látið það brenna af sér hunangið svo auðveldara sé að hreinsa grillið.


Sætkartöflustrimlar

1 1/2 sæt kartafla
2 msk olía
sjávarsalt
svartur pipar
balsamikgljái

 Afhýðið sætar kartöflur og skerið þær í þunnar skífur með riffluðum hníf. Veltið sætkartöfluskífunum upp úr olíu, sjávarsalti og svörtum pipar og raðið þeim á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Grillið kartöfluskífurnar í ofni við 200° í 15-20 mínútur eða þar til endarnir verða stökkir og fallega brúnir. Dreifið þeim síðan yfir salatbeð og sprautið balsamikgljáa yfir.


Hunangssinnepssósa

3/4 bolli grísk jógúrt
2 msk Hellman's majones
2 msk gult sinnep
4 msk fljótandi hunang
1 msk hvítvínsedik
sjávarsalt
svartur pipar

Hrærið saman í skál grískri jógúrt, majonesi, gulu sinnepi, hunangi og hvítvínsediki. Smakkið sósuna til með sjávarsalti og svörtum pipar.


Öll hráefni í þennan sumarlega kjúklingarétt fást í Fjarðarkaupum.


Ég hvet ykkur til að prófa um leið og sólin lætur sjá sig!


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur