Starbucks sítrónukaka


Þessari dásamlegu sítrónuköku kynntist ég á Starbucks kaffihúsi á Flórída fyrir fimm árum og það var svo sannarlega ást við fyrstu sýn. Ég endurnýjaði svo kynnin við hana nokkrum sinnum í New York í fyrra og hún var enn betri en í minningunni. Töfrar internetsins gerðu mér kleift að finna uppskriftina að kökunni en ég þýddi hana yfir á íslensku og breytti örlítið. Athugið að mælieiningin er amerískur bolli (cup).

Starbuck's kakan er til vinstri á myndinni.

Starbucks sítrónukaka

Formkaka

1 1/2 bolli hveiti
1/2 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
3 egg
1 bolli sykur
2 msk mjúkt smjör
3 tsk vanilludropar
2 tsk sítrónudropar
1/2 bolli safi úr sítrónu
1/2 bolli jurtaolía
börkur af 1 sítrónu


Blandið hveiti, matarsóda, lyftidufti og salti saman í skál og leggið til hliðar.
Hrærið vel saman í annarri skál egg, sykur, smjör, vanilludropa, sítrónudropa og sítrónusafa. Hellið blöndunni saman við þurrefnin og hrærið þar til deigið verður mjúkt. Bætið olíu saman við ásamt röspuðum berki af einni sítrónu.

Hellið deiginu í vel smurt brauðform og bakið við 175° í um 45 mínútur.

Gott er að setja smjörpappírsörk í botninn á forminu því formkökur eiga það til að festast við botninn ef formið er ekki smurt vel og vandlega.


Glassúr

1 1/2 bolli flórsykur
3 msk nýmjólk
1 tsk sítrónudropar
sítrónusafi eftir smekk


Hrærið saman flórsykur, nýmjólk og sítrónudropa. Smakkið til með sítrónusafa en passið að glassúrinn verði ekki of súr.


Ég geri sítrónukökuna þegar mig langar í eitthvað bakkelsi en nenni ómögulega að gera mér ferð í búð til að versla í bakstur. Hráefnin eru oftast til á heimilinu og ég er enga stund að hræra í eina köku.
Sérlegum sítrónukökuunnendum bendi ég á stóru systur þessarar köku sem inniheldur m.a. möndlur. Kakan er svona aðeins meira fullorðins en uppskriftina má nálgast hér.

Verði ykkur að góðu!

Ummæli

 1. Hæ, þessa uppskrift verð ég að prófa :)
  Þegar þú talar um sítrónusafa, ertu að meina safa úr kreistri sítrónu ?
  bkv.

  SvaraEyða
  Svör
  1. Hæ Ásta,
   Safinn er úr ferskri sítrónu já, bara sítrónunni sem þú raspar börkinn af :) Breyti þessu í uppskriftinni svo það skiljist betur.
   Hún er alveg dásamleg, þú verður ekki svikin :)

   Eyða
 2. Bíddu, hvort á sitronusafinn að fara út í blönduna með vökvanum og sykrinum eða í restina? Það er á báðum stöðum hjá þér. Ég vona að kakan mín heppnist

  SvaraEyða
  Svör
  1. Sítrónusafinn fer út í blönduna með vökvanum og sykrinum. Takk fyrir ábendinguna.

   Eyða
 3. Bests sítrónukaka sem èg hef smakkað, búinn að hana oft.

  SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur