Eins árs afmælisveisla, matarmyndir og dásamlegur pepperonibrauðréttur


Um helgina héldum við síðbúna afmælisveislu fyrir litla stýrið. Veðrið var nú ekkert leikandi ljúft en dagurinn engu að síður góður. Mér finnst alltaf jafn notalegt að eiga stund með fjölskyldunni yfir góðum mat. Þar sem Klara Sóllilja var bara að verða eins árs buðum einungis nánustu fjölskyldu og höfðum afmælisboðið lítið. 


Afmælisbarnið orðið svolítið þreytt eftir veisluhöldin. Eina óhreyfða myndin sem náðist af henni þennan dag, eða svona nokkurn veginn óhreyfð.

Eftir veisluna fékk ég til mín góða vinkonu mína hana Patrycju í te og spjall, og kökuát auðvitað líka. Margrét Edda vinkona mín, fitnessdrottning með meiru og unnusti hennar bættust svo við í teboðið en þau rétt ráku inn nefið til að kveðja mig því í dag lögðu þau af stað til Mexíkó og Bandaríkjanna þar sem þau ætla að búa næstu mánuði.


 Súkkulaðikökur eru ómissandi í afmælisveisluna, djöflatertan góða klikkar ekki.


 Ég reyni eftir fremsta megni að halda sykurneyslu í lágmarki hjá Klöru, mér finnst óþarfi að gefa henni sætabrauð þegar hún sættir sig við að fá eitthvað annað. Í staðinn fyrir að gefa þeim sykraðar kökur gerði ég litlar sykurlausar barnakökur fyrir frænkurnar. Þær slógu vægast sagt í gegn.


Kökupinnar eru sívinsælir hjá börnum jafnt sem fullorðnum og þá sérstaklega kærastanum mínum. Ég þurfti að verja pinnana með kjafti og klóm á meðan ég var að búa þá til svo það yrði til nóg fyrir gestina.


Ég gerði þessa marengsköku í fyrsta skipti, dásemdin sem hún er. Með þeim bestu sem ég hef smakkað.


Krúttið hann pabbi bjó til ofboðslega gott og öðruvísi túnfisksalat í tilefni dagsins.

 Ég mun birta uppskriftirnar að góðgætinu hér að ofan við tækifæri en núna ætla ég að deila með ykkur uppskrift að dásamlegum brauðrétti sem ég fékk hjá brauðréttasnillinginum henni Helgu, tengdamóður systur minnar. Ég smakkaði réttinn fyrst hjá systur minni þegar Helga var svo yndisleg að rétta fram hjálparhönd og útbúa brauðrétt fyrir eina veisluna. Það er óhætt að segja að þessi brauðréttur klikkar aldrei og er oftast það fyrsta sem klárast í veislum hjá okkur systrum.


Pepperonibrauðréttur

1 piparostur
1 mexíkóostur
2 dósir sýrður rjómi
100 g rjómaostur
4-5 dl matreiðslurjómi
1 bréf beikon
1 bréf pepperoni
1 askja sveppir
1/2 - 1 púrrulaukur
250 g rifinn ostur
1/2 - 1 samlokubrauð

Skerið pipar- og mexíkóost í bita og bræðið í potti ásamt sýrðum rjóma, rjómaosti og matreiðslurjóma.
Skerið beikon í bita og steikið á pönnu. Skerið pepperoni, sveppi og púrrulauk í bita og steikið á pönnunni með beikoninu í 2-3 mínútur þegar beikonið er orðið svolítið stökkt. Hrærið öllu saman við ostablönduna.
Fjarlægið skorpuna af brauðsneiðunum og skerið þær í hæfilega stóra teninga. Dreifið helmingi brauðteninganna í botninn á eldföstu móti og hellið helmingi ostablöndunnar yfir. Setjið því næst afganginn af brauðteningunum yfir og annað lag af ostablöndu. Sáldrið rifnum osti yfir herlegheitin og bakið í ofni við 200° í 20 mínútur eða þar til osturinn verður svolítið brúnn og stökkur.

Verði ykkur að góðu!

Ummæli

  1. Mjög girnilegt... hlakka mikið til að sjá uppskriftina af túnfisksaladinu :)

    SvaraEyða
  2. Ertu til í að deila uppskriftinni af marengskökunni :)

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur