Heimagert pestó og lúxussamloka tilvalin í nestispakkann


Stuttu fyrir jól rann á mig pestóæði og ég borðaði mikið af því í nokkra daga ásamt camembert osti. Grænt pestó og camembert ostur eru himnesk blanda ofan á ristað brauð en best finnst mér þó að útbúa væna lúxussamloku þegar ég splæsi í pestógerð. Samlokunni góðu kynntist ég í Leifsstöð fyrir mörgum árum og það var ást við fyrsta bita.

Ég kaupi stundum pestó í krukkum en mér finnst það óttalega bragðlaust og jafnast ekkert á við heimagert.

Hérna er uppskriftin mín að ljúfu basilíkupestó.


Basilíkupestó

50 g fersk basilíka
1 tsk sjávarsalt
1 1/2 dl furuhnetur
1 msk rifinn parmesan ostur
1 1/2 dl ólífuolía
1/2 tsk sítrónupipar

Ristið furuhnetur á þurri pönnu.
Maukið basilíku, furuhnetur, parmesan ost, sítrónupipar og sjávarsalt í matvinnsluvél eða blandara og hellið ólífuolíu smátt og smátt saman við þar til pestóið verður hæfilega þunnt.

Ég kýs að setja heldur mikla olíu í pestó því hráefnin drekka hana svolítið í sig þegar pestóið er geymt í ísskáp.


Þegar basilíkupestóið er tilbúið er tilvalið að setja saman eina lúxussamloku.


Lúxussamloka

2 sneiðar dökkt brauð
1 msk basilíkupestó
salatblöð
2 sneiðar ítalsk salami
2 sneiðar tómatur
3 sneiðar camembert ostur

Smyrjið brauðsneiðar með basilíkupestó og raðið samlokunni fallega saman svo  hún verði nú enn bragðbetri.

Mér þykir dökkt og gróft brauð passa best með hráefnunum og verður Fitty brauð oft fyrir valinu.


Það er svo gaman að gera einfaldan en jafnframt góðan mat, það þarf stundum ekkert að vera flóknara en falleg samloka!


Bestu kveðjur,

Tinna Björg

Ummæli

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur