Gamli góði Langi Jón


 Laugardagur í dag og kominn tími til að deila einni sérlega ljúffengri uppskrift. Kruðeríið gerist bara ekki sælkeralegra en Langi Jón. Þeir sem hrifnir eru af kleinuhringjum og vanillu munu elska þessa gæja.

Það heyrir undantekningum til að finna langa jón í bakaríum nú til dags. Já ég sagði nú til dags þótt ég sé bara 25 ára. Því þegar ég var barn var það nokkurn veginn tryggt að maður gat gengið inn í næsta bakarí og verslað sér einn elskulegan langa jón. Eina bakaríið sem ég veit að selur þá í dag er Kallabakarí á Akranesi en þar fást einhverjir þeir allra bestu löngu jónar sem ég hef smakkað.

Þegar ég var með föður mínum og afa í Missouri í Bandaríkjunum árið 2008 fór ég á Dunkin' Donuts full eftirvæntingar því ég ætlaði svo aldeilis að smakka ekta amerískan langa jón, hann hlyti að vera sá allra besti. Ég hafði rangt fyrir mér. Í staðinn fyrir að innihalda þessa dásamlegu vanillufyllingu sem þekkist hér, var hann fylltur vanillukremi svipuðu hvíta Betty Crocker kreminu. Ekki misskilja mig, ég elska Betty Crocker kremið en það á ekki heima inni í langa jóninum mínum. Ofan á honum var svo hörð bragðlaus sykurleðja sem átti að heita glassúr. Þvílík vonbrigði. Þegar ég fer til Bandaríkjanna kem ég þangað til að borða alla þá fitandi dásemd sem þau hafa upp á að bjóða.

Til að þurfa ekki að fara alla leið upp á Akranes þegar mig langar í langa jón þá hef ég gert mína eigin. Þeir eru alveg meiriháttar góðir og ekki ósvipaðir þeim sem fást í bakaríum. Vanillufyllingin er auðvitað guðdómleg ein og sér, enda ratar bara um það bil helmingur hennar inn í löngu jónana, ef ég næ að hemja mig.

 
Langi Jón með karamelluglassúr
Langi Jón

3 msk þurrger
10 msk sykur
450 ml volg mjólk
3 egg 
675 g hveiti
1 tsk salt
150 g brætt smjör
3 tsk vanilludropar
1000 ml sólblómaolía til djúpsteikingar

Leysið ger og 1 1/2 msk af sykri upp í 6 msk af vel volgri mjólk. Leggið rakt viskastykki eða plastfilmu yfir skálina og látið hefast í 15 mínútur. 
Þeytið egg í skál og leggið til hliðar.
Blandið saman hveiti, salti og 8 1/2 msk af sykri í hrærivélarskál. Mótið holu í miðja hveitiblönduna og hellið gerdeiginu ofan í ásamt rest af mjólk. Hrærið saman og bætið þeyttum eggjum við, bræddu smjöri og vanilludropum. Leggið rakt viskastykki yfir hrærivélarskálina og látið hefast í 45 mínútur eða þar til deigið hefur tvöfaldast.

Sáldrið vel af hveiti á borðið og hnoðið deigið upp úr því með höndunum í um 5 mínútur. Fletjið deigið út þannig að það verði 2-3 cm þykkt og skerið út hæfilega stóra langa jóna.

Setjið löngu jónana á smjörpappírsklæddar ofnskúffur og leggið viskastykki yfir. Látið hefast í 30 mínútur á heitum stofuofni eða öðrum hlýjum stað þar til þeir hafa tvöfaldast.

Hitið olíu í stórum potti þar til hún hefur náð 180-190° hita.
Hægt er að prófa hana með því að láta brauðbita ofan í, ef hann verður gullinbrúnn eftir um það bil 30 sekúndur er olían tilbúin. Passið að hún hitni ekki of mikið.

Leggið nokkra langa jóna varlega ofan í olíuna og steikið í 3-5 mínútur. Takið upp úr pottinum með þar til gerðum djúpsteikingarspaða og leggið á eldhúspappírsklætt fat. 
Uppskriftin er svolítið stór en mér finnst gott að frysta nokkra löngu jóna til að eiga. Þá þarf bara að útbúa vanillufyllingu og karamelluglassúr þegar kruðerísköllunin kemur.
  
Vanillufylling

4 eggjarauður
1/3 bolli sykur
3 msk hveiti
2 msk Maizenamjöl
1 1/2 bolli mjólk
1/4 bolli rjómi
1 vanillustöng
1 tsk vanilludropar

Þeytið eggjarauður og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Þeytið svo Maizenamjöli og hveiti saman við og leggið til hliðar.

Hitið mjólk og rjóma í potti. Kljúfið vanillustöng, skafið úr henni fræin og bætið í pottinn. Látið suðuna koma upp á miðlungs hita þar til fer að krauma og hrærið stanslaust á meðan. Hellið heitu mjólkinni rólega saman við eggjablönduna, um það bil 1/4 bolla í einu og þeytið hratt með pískara á meðan. Með því að bæta alltaf smá mjólk rólega saman við eggjablönduna í einu hækkar hitastig eggjanna án þess að þau eldist. Hrærið vanilludropum saman við fyllinguna og hitið aftur á lágum hita. Hrærið áfram hratt með pískara í 1-2 mínútur eða þar til fyllingin verður nógu þykk til að hún leki ekki.

Stingið mjóum hníf eða prjóni í gegn um löngu jónana eftir endilöngu og þrýstið til hliðanna til að búa til holrúm. Setjið vanillufyllinguna í sprautupoka og sprautið inn í þá. Ég sprauta inn í báða enda svo fyllingin nái örugglega inn að miðju.

Karamelluglassúr 

200 g smjör
200 g púðursykur
2 dl rjómi
3 tsk vanilludropar
2-3 dl flórsykur

Sjóðið saman smjör, púðursykur, rjóma og vanilludropa.
Látið krauma við vægan  hita í nokkrar mínútur og kælið aðeins. Hrærið flórsykri saman við, byrjið á 1 dl og bætið svo við þar til glassúrinn er orðinn hæfilega þykkur.
Smyrjið glassúrnum á löngu jónana eða dýfið þeim í áður en hann byrjar að storkna.


Sérlegir sælkerar verða að prófa þessa uppskrift, ég meina það.

Fylgið mér endilega á Instagram : tinnabjorgcom

Góða helgi!


Tinna Björg

Ummæli

  1. Namm, Þetta þarf ég að prófa

    SvaraEyða
  2. Flott uppskrift sem maður þarf að prófa :) En fyrir þá sem langar í langa Jón og hafa ekki tíma í baksturinn þá eru þeir seldir í Fjarðarbakarí sem er í Hafnarfirði og líka á Borgarholtsbraut í Kópavogi.

    SvaraEyða
    Svör
    1. Ég þangað! Takk kærlega fyrir þessar upplýsingar.

      Eyða
  3. Þeir fást líka í Jól Fel Bakaríinu í kringlunni :D svoooo góðir nammm

    SvaraEyða
  4. Ég gerði þessa uppskrift um helgina. Hún var geðveik. Eitt sem ég tók eftir að í uppskriftinni er talað um 10 msk sykur en í aðferðinni er talað um tsk. eins fannst mér 3 msk. ger svoldið mikið þannig að ég hafði 3 tsk.

    Kveðja,
    Friðrik

    SvaraEyða
    Svör
    1. Takk fyrir ábendinguna um tsk og msk, er búin að leiðrétta þessar fljótfærnisvillur.
      Í þessari uppskrift eru það msk af geri en það er rétt hjá þér, það má minnka gerið til muna. Margar uppskriftir innihalda einungis nokkrar tsk.

      Eyða
  5. Bestu "Löngu-Jónarnir" eru klárlega í Kallabakarí á Akranesi (Brauða- og kökugerðin). Slefa við tilhugsunina.
    Svo eru þau einu af örfáum á Íslandi sem kaupa ekki innfluttu kleinuhringina heldur gera þá sjálf frá grunni. Ohhh namm.

    Vildi bara koma þessu á framfæri ;) Annars er þetta frábær síða! Mun klárlega skoða oftar.

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur