Frískað upp á fötin með fatalit


Ég er ein af þeim sem leggja ástfóstur við ákveðnar flíkur og sama hversu sjúskaðar þær verða er það mér lífsins ómögulegt að henda þeim.

Móðir mín hefur oftar en ekki þurft að grípa inn í þessa fatavæntumþykju mína og hreinlega hent flíkum af mér í skjóli nætur.

Einu sinni átti ég boxer stuttbuxur sem ég hafði notað sem náttbuxur í fjölda ára. Þær voru ekki bara snjáðar og upplitaðar heldur líka gatslitnar. Mömmu þótti ómögulegt að ég héldi ennþá upp á þessar stuttbuxur þótt ég hefði fengið nýjar náttbuxur. Hún greip til sinna ráða, læddist inn til mín þegar ég sá ekki til og fleygði buxunum út í ruslatunnu. Það var fyrir tilviljun að ég fór út með ruslið þennan dag og fann þar elskulegu náttbrókina mína. Ég tók stuttbuxurnar auðvitað aftur með mér inn, þvoði þær og hélt áfram að nota.
Nokkru síðar lét móðir mín aftur til skarar skríða og þá hurfu stuttbuxurnar fyrir fullt og allt.

 Nú hljóma ég eflaust eins og níræð skrudda en mér finnst fötin sem maður kaupir í dag, sérstaklega gallabuxur, halda illa lit og verða fljótt snjáð. Sem er mjög óhentugt fyrir fólk eins og mig sem elskar fötin sín!

Klóka húsmóðirin hún mamma fékk þá hugmynd fyrir stuttu að kaupa fatalit og lita snjáðar gallabuxur. Hún hefur núna litað þónokkrar gallabuxur af sjálfri sér og föður mínum ásamt nýjum bol sem hafði komið blettur í.

Ég keypti mér svartar gallabuxur fyrir 5 árum sem eru ekki mikið notaðar en þær urðu snjáðar ansi fljótt. Móðir mín litaði þær til að skerpa á þeim með góðum árangri og nú eru þær eins og nýjar.

 Önnur flík sem ég hef tekið ástfóstri við þessi er úlpa sem ég keypti í Prag fyrir 6 árum. Ég bókstaflega bjó í henni þau 3 ár sem ég notaði hana og var mikið farið að sjá á henni. Hún varð snjáð og gerviloðkraginn ónýtur. Með miklum trega neyddist ég til að dæma úlpuna úr leik og fá mér nýja.


Svo ég haldi áfram að vera dramatísk þá bar söknuðurinn min ofurliði og ég keypti mér um daginn fatalit til að lita úlpuna í von um að geta notað hana aftur.

Fataliturinn heitir Dylon og fæst hjá Þorsteini Bergmann á Skólavörðustíg 16a. Litavalið er fjölbreytt og aðferðin við litunina er afar einföld. Flíkin er sett í þvottavél ásamt litarduftinu og 500 g af grófu salti. Saltið er sett með til að binda litinn.



Útkoman gladdi mig mikið og ég er núna aftur flutt inn í hlýju og yndislegu úlpuna mína.

Ég tók af henni sjúskaða gerviloðkragann og festi á hana Cintamani loðkraga.





 Þetta er góð leið til að nýta fötin betur og ég hvet ykkur til að prófa þessa lausn áður en þið gefist upp á gömlu görmunum.


Bestu kveðjur!

Tinna Björg

Ummæli

  1. En fyndið því ég VAR að fara gera það sama við gallabuxurnar mínar. Gott að sjá einhvern hafa góða reynslu því ég hef heyrt misgóða hluti <3 snillingur

    SvaraEyða
    Svör
    1. Ég myndi ekki hika við að prófa þetta Aldís, þessi litur hefur allavega alltaf reynst mjög góður á mínu heimili.

      Eyða
  2. gastu keypt loðkragan stakan?

    SvaraEyða
    Svör
    1. Ég notaði kraga sem pabbi minn á og notar ekki en síðast þegar ég vissi var hægt að fá stakan kraga hjá Cintamani.

      Eyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur