Mínus hveiti og sykur takk


Senn líður að lokum meistaramánaðarins sem ég ætlaði aldeilis að taka með trompi, en gerði ekki. En það er önnur saga. Ég tek meistaradesembermánuð bara í staðinn, eða ekki.

Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift sem ég hef áður sett á bloggið en breytti henni örlítið. Þessi bananabrauðsuppskrift datt mér í hug í einu af mínum mörgu ,,heilsuátökum'' sem entust í korter. Þið stelpurnar þekkið það eflaust flestar.
Brauðið inniheldur hvorki sykur né hveiti en er samt sem áður alveg ofboðslega mjúkt, sætt og gott og alls ekki ósvipað hinu hefðbundna bananabrauði sem er svoleiðis stútfullt af sykri. 



Bananabrauð án sykurs og hveitis

1 dl Sukrin
2 egg
1 tsk salt
1/2 tsk matarsódi

3 - 4 stappaðir bananar
5 dl malað haframjöl

handfylli heslihnetur

Hrærið Sukrin og eggjum saman í skál ásamt salti og matarsóda. Blandið stöppuðum bönunum og möluðu haframjöli saman við.
Smyrjið brauðform, smyrjið deiginu í og sáldrið heslihnetum jafnt yfir.
Bakið við 180° í 45-50 mínútur eða þar til bananabrauðið verður svolítið dökkt.

Athugið að haframjölið er fínmalað í blandara eða matvinnsluvél áður en það er mælt.

Þeir sem vilja hafa bananabrauðið mjög sætt setja 4 banana í deigið, mér finnst nægja að hafa þá 3 eða 3 1/2. Heslihneturnar ofan á brauðinu þykja mér ómissandi. Þær ristast í ofninum og verða svo dásamlega stökkar og bragðgóðar.

Öll hráefni í brauðið mitt elskulega fékk ég í Fjarðarkaupum, þeirri yndislegu verslun. Ég elska að koma þangað, búðin er risastór en samt sem áður svo hlýleg og lætur mér líða eins og ég sé að versla hjá kaupmanninum á horninu.





Verði ykkur að góðu! 
Tinna Björg

Ummæli

  1. Þetta brauð er algjör snilld! Setti reyndar möndlur ofan á en það var rosa gott líka :)

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur