Hrákaka með ávöxtum og próteinhristingur sem minnir á ís


Nú er fæðingarorlofssumarfríið mitt að klárast og skólinn að byrja í næstu viku svo það er tímabært að fara að taka aðeins til í mataræðinu, svona á virkum dögum allavega. Ég hef verið afar afslöppuð í mataræðinu í sumar og lítið stundað líkamsrækt en þó einhverja. Planið er að stunda líkamsrækt nokkrum sinnum í viku með skólanum en það er spurning hversu vel gengur að fylgja því eftir.

Þegar skólatíðin byrjar undirbý ég mig með því að útbúa nesti og frysta þannig að ég eigi alltaf nokkra skammta til. Mig langar alltaf í einhver sætindi seinnipart dags og þar sem ég er ekkert mikið fyrir að segja nei við sjálfa mig leyfi ég mér oftast einhver sætindi einu sinni á dag. Nammibarinn hefur oftar en ekki orðið fyrir valinu en það er ekki eitthvað sem maður getur leyft sér á hverjum degi til lengdar og mér líður oftast ekkert sérlega vel eftir á. Ég reyni því að eiga hollari sætindi tilbúin í frystinum til að taka með mér í skólann og hafa við höndina þegar sykurþörfin lætur á sér kræla.

Mér finnst mjög gott að eiga eina hráköku í frystinum og taka með mér sneið í skólann. Tala nú ekki um hvað það er þægilegt að eiga hana tilbúna þegar óvæntir gestir koma í heimsókn. Ein sneið af þessari ljúffengu hráköku fullnægir sykurþörfinni og maður borðar hana samviskulaust. Hafa ber þó í huga að þótt hráefnin séu holl þá eru nokkur þeirra mjög hitaeiningarík. Allt er gott í hófi en ég vil meina að þessi kaka sé klárlega betri kostur en nokkurn tíma sælgæti.



 Hrákaka með ávöxtum

250 g döðlur
1 banani
2 dl haframjöl
2 msk kakó

1 banani
1 askja jarðarber
1 bolli frosin hindber
50 g suðusúkkulaði eða 70% súkkulaði

Sjóðið döðlur í vatni í 5-10 mínútur þar til þær verða mjúkar og hellið svo af þeim vatninu. Maukið döðlurnar í matvinnsluvél ásamt banana, haframjöli og kakó.

Þrýstið blöndunni ofan í kökuform og setjið í frysti á meðan ávextirnir eru skornir.

Skerið banana í þunnar sneiðar og raðið á kökuna. 
Skerið jarðarber í tvennt og dreifið yfir kökuna. Kurlið frosin hindber yfir með því að kremja þau á milli fingranna.

Bræðið súkkulaði og hellið í mjórri bunu yfir kökuna.

Einnig er mjög gott að strá smávegis af kókosflögum yfir súkkulaðið.

Ég læt oftast nægja að hafa banana og frosin hindber á kökunni en af því að uppskeran í garðinum er ennþá í fullum gangi þá skellti ég jarðarberjum á hana líka.

Þegar ég bræði súkkulaði hita ég það í 30 sekúndur í örbylgjuofni í senn og hræri á milli. Ég er svo óþolinmóð að ég nenni ómögulega að bíða eftir að það bráðni yfir vatnsbaði og mér tekst alltaf að sulla vatni ofan í það.

Ég set kökuna í frysti ef hún er ekki borðuð strax því bananinn er fljótur að verða brúnn.


Það eru eflaust margir sem hafa slegið slöku við eins og ég í líkamsrækt í sumar og ætla sér að taka sig á með haustinu. Ég mæli með að þið prófið þennan dýrindis próteinhristing sem ég fæ mér stundum eftir æfingu.



250 ml vatn
1 skammtur jarðarberjaprótein
6 frosin jarðarber
8 frosin hindber
6-8 klakar
1 msk hörfræ
1 msk kók0sflögur
2 msk múslí

Setjið öll hráefni í blandara og hellið í fallegt glas.

Próteinhristingurinn minnir á ís og er alveg ofboðslega ferskur og bragðgóður.
Ég nota Sci-Mx Grow+ próteinduft með strawberry cream bragði því það freyðir aðeins og verður eins og alvöru sjeik þegar því er blandað saman við klaka.

Ég hvet ykkur til að prófa kökuna kæru vinir, hún er svo góð að litli matvandi 6 ára frændi minn borðaði hana með bestu lyst og þá er nú mikið sagt!

Njótið kvöldsins.


Tinna Björg

Ummæli

  1. Var með hrákökuna í eftirrétt í kvöld og hún sló í gegn jafnt hjá börnum sem fullorðnum. Rosa góð! Notaði reyndar kíví í stað jarðarberjanna þar sem ég átti þau ekki. Flott blogg hjá þér :)

    SvaraEyða
    Svör
    1. Takk kærlega fyrir það, gaman að heyra að kakan smakkaðist vel :)

      Eyða
  2. Komdu sæl Tinna

    Kiki a bloggið þitt reglulega og finnst það mjög skemmtilegt:) Þar sem eg er nybyrjuð að baka og elda af viti þá spyr eg eins og ansi hehehe haframjöl er það sama og maður kaupir ti að nota i hafragraut? Langar svo að prufa þessa hraköku;)

    kvöld Jovana

    SvaraEyða
  3. Sæl og blessuð Jovana,

    Já haframjöl er það sem notað er í hafragraut. Svo er líka hægt að nota tröllahafra en þar sem hráefnin eru sett í matvinnsluvél finnst mér ekki skipta máli hvort það séu hafrar eða haframjöl.

    Takk fyrir hlý orð, gaman að fá svona jákvæðar athugasemdir.
    Gangi þér vel í eldamennskunni :)

    SvaraEyða
  4. Ég vildi bara þakka þér fyrir æðislegar uppskriftir var að prufa bananabrauðið og ymislegt annað og allt mjög gott ætla að prufa hrákökuna um jólin kv Hulda

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur