Steikt eggjabrauð með jarðarberjum og bláberjum


Í fyrradag birtist smá viðtal við mig í Lífinu sem fylgir Fréttablaðinu á föstudögum. Þar er aðeins fjallað um mig og minn bakgrunn en einnig fylgir uppskriftin að myntuskyrtertunni minni.
Viðtalið getið þið séð hér.

Menningarnótt var í gær og í tilefni dagsins gerðumst við fjölskyldan svolítið menningarleg. Faðir minn bauð okkur í Perluna þar sem við gæddum okkur á mat, kaffi, kökum og ís. Eftir herlegheitin fórum við á Sögusafnið sem er staðsett í einum tankinum í Perlunni. Á safninu kynnist maður Íslandssögunni á ofboðslega skemmtilegan hátt en sýningargripirnir eru eins konar vax- eða sílíkonfígúrur sem eru alveg skuggalega raunverulegar. 
Sjón er sögu ríkari og ég mæli með því að þið kíkið á safnið og takið börnin með ykkur. Hægt er að klæða sig upp sem víkingar og þar fást trésverð fyrir börnin.

Eftir dýrindis Perluferð lá leið okkar niður í miðbæ í stutt bæjarrölt.


Við vöknuðum þennan fína sunnudag útsofin og fengum okkur amerískan morgunverð eins og hann gerist bestur.
Faðir minn vann hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli í fjölda ára og lærði eitt og annað af Kananum sem við í fjölskyldunni höfum tileinkað okkur í gegn um árin. Eitt af því er steikt eggjabrauð eða ,,french toast'' eins og það er víst kallað. Mér þykir eggjabrauðið betra en amerískar pönnukökur en það er tilvalið í brunch með eggjum og beikoni


Steikt eggjabrauð
2 egg
1/2 dl  mjólk
salt
hvítur pipar
3 brauðsneiðar

pönnukökusýróp
smjörklípa
jarðarber
bláber

Pískið egg og mjólk saman í skál.
 Saltið og piprið eftir smekk. 


Veltið báðum hliðum brauðsneiðanna upp úr eggjablöndunni og látið liggja í bleyti í stutta stund.


 
Steikið brauðsneiðar á báðum hliðum þar til þær verða fallega brúnar. Þegar miðjan hefur bólgnað upp eru eggin elduð og brauðsneiðarnar tilbúnar.

Setjið brauðsneiðarnar á disk og smyrjið með smjöri. Hellið svo pönnukökusýrópi og sáldrið berjum yfir þær.


Gott er að nota brauð sem farið er að þorna því það drekkur betur í sig eggjablönduna. Því er tilvalið að steikja eggjabrauð ofan í fjölskylduna þegar brauðið á heimilinu er farið að nálgast síðasta söludag.


Verði ykkur að góðu og njótið þess að dansa í rigningunni í dag!


Tinna Björg

Ummæli

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur